Autumn Classic International 2018: Eva Dögg og Júlía

Autumn Classic International 2018: Eva Dögg og Júlía

Júlía Grétarsdóttir og Eva Dögg Sæmundsdóttir eru komnar heim eftir keppnisferð á Autumn Classics International í Oakville í Kanada.

Mótið er hluti af ISU Challenger series mótaröðinni sem er næst í styrkleikaröð fyrir neðan Grand Prix mótin og reyna skautarar þar að ná góðum úrslitum til að koma til greina á þá mótaröð að ári. Mótin eru samtals tíu og eru haldin um allan heim. Umgjörð er mikil enda margir af bestu skauturum heims að taka þátt, aðdáendur, fjölmiðlafólk, framámenn í skautaheiminum og gífurlegur fjöldi áhorfenda á mótinu.

Eva og Júlía voru því að upplifa margt í fyrsta skiptið og reyndi á að halda einbeitingunni þegar þurfti að gefa eiginhandaráritanir, pósa í myndatökum með aðdáendum og gefa viðtöl í beinni útsendingu svo ekki sé talað um þá athygli sem þær vöktu fyrir að vera fyrstu fulltrúar landsins okkar á þessari sterku mótaröð.

Stelpurnar stóðu sig eins og fagmenn og voru íslensku skautafjölskyldunni til sóma.

Keppt var með stutt prógram á fimmtudegi. Alls voru 22 keppendur skráðir til leiks. Eva skautaði tíunda og skilaði góðum sporum en stökkin gengu ekki alveg sem skildi. Eva túlkaði hins vegar prógramið afar vel og fékk góð PC stig. Júlia skautaði sextánda, síðust í hópi með Evgeninu Medvedevu og Mai Berenice Meite. Stökkin gengu illa hjá henni en spinnar og spor voru góð. Eva var í 20. sæti eftir stutta með 28.82 stig og Júlia í 21. sæti með 26.69.

Á föstudeginum var komið að langa prógramnu og dró Eva rásnúmer eitt og hóf því keppnina með fallegu prógrami með dúndur túlkun og góðum levelum. Í seinni hluta prógramsins komu nokkur einföld stökk en endaði svo með góðum CCoSp spin á level 3. Eins og fyrri daginn var Eva með góða PC einkunn sem er virkilega gott á svona sterku móti. Þá var komið að Júlíu. Eftir smá áfall á aðalæfingunni um morguninn og klukkutíma meðferð hjá sjúkraþjálfaranum í höllinni steig hún þriðja á ísinn og skautaði flott prógram, reyndi þrefalt Loop en datt í Axelnum. Spinnar voru ágætir og sporin góð. Tæknistigin voru góð en eitthvað vantaði upp á PC stigin sem er veganesti sem tekið er inn í vinnu komandi vikna. Í frjálsa prógraminu fékk Eva 51.05 stig og var í 22. sæti og Júlia 52.93 stig og í 21. sæti.

Stúlkurnar luku því keppni reynslunni ríkari, Eva í 21. sæti með 79.87 stig og Júlia í 22. sæti með 79.62 stig.

Júlía og Eva voru sammála um hversu mikilvæg þessi reynsla hafi verið þótt mikill taugatitringur hafi gert vart við sig hjá þeim báðum. Þetta sé ómetanlegur undirbúningur fyrir komandi mót og hverju þær mega eiga von á í framtíðinni. Þótt stressið hafi svolítið náð að skekkja frammistöðuna vildu þær samt taka fram að þær gengu sáttar frá sínu og að gott sé að vita hvar þær standa í "stóra" samhenginu. Stúlkurnar eru að skrifa skautasöguna og er þetta einungis fyrsta skrefið í mörgum sem íslenska skautafjölskyldan á eftir að taka á alþjóðavettvangi.

Skautasamband Íslands óskar stúlkunum til hamingju með árangurinn.

Translate »