Breyting á tilhögun úrslita hjá yngri aldursflokkum

Breyting á tilhögun úrslita hjá yngri aldursflokkum

– Stefna ÍSÍ um íþróttir barna & unglinga og ný persónuverndarlög –

Fæstir hafa líklega farið varhluta af því að á fyrsta skautamóti vetrarins, Haustmótinu sem haldið var á Akureyri um síðustu helgi, voru úrslit í keppnisflokkum Chicks og Cubs með breyttu fyrirkomulagi af því sem áður hefur verið.

Líkt og gefið var út fyrir komandi tímabil í Mótahandbók ÍSS þá hefur sú breyting átt sér stað að úrslit í þessum flokkum munu verða með því sniði að allir keppendur á aldrinum 10 ára og yngri fá þátttökuviðurkenningu þegar keppt er og eru ekki gefin upp fyrstu þrjú sætin.

Fyrir þessa ákvörðun hefur fyrirkomulagið verið á þann hátt að gefin hafa verið verðlaun fyrir fyrstu þrjú sæti keppnisflokkanna og hinir í keppnisflokknum fá viðurkenningarþátttökupening og keppendur lesnir upp í keppnisröð. Þrátt fyrir það hafa á sama tíma úrslit flokkanna einnig verið birt á úrslitasíðu mótsins og allir hafa getað sé hvernig keppendur raðast niður í sæti eftir einkunn.

Ástæða fyrir þessari ákvörðunartöku Skautasambandsins er tvíþætt:

Fyrirmæli og stefna Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem tekin var upp árið 1996 vísar skýrt til þess að draga skuli úr mikilvægi úrslita fyrir yngri aldurshópa en leggja þeim mun meiri áherslu á þjálfun í tæknilegri færni og almenna háttvísi og íþróttamannlega framkomu. Nánar má lesa um stefnu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga og niður á aldursflokka.

Seinni ástæða þess að þessi ákvörðun er tekin nú rúmum tveimur áratugum eftir að stefna ÍSÍ hefur legið fyrir má rekja til þess að þann 1. júlí sl. tóku í gildi ný persónuverndarlög (GDPR) sem setur öllum stofnunum, þar á meðal íþróttafélgögum og samtökum, mjög þröngar skorður um hvaða gögn sé leyfilegt að opinbera.

Þar sem um gögn ungra einstaklinga er að ræða sem og ljóst er hver stefna ÍSÍ er í þessum málum hefur Skautasambandið ákveðið að taka endanlega ákvörðun um að hætta að birta úrslit þessarra keppnisflokka opinberlega á vefsíðu sinni og þar með leggja niður það fyrirkomulag sem verið hefur á mótum í samræmi við meðhöndlun gagnanna.

Þess í stað mun þjálfurum félaga verða sendar niðurstöður (protocol) iðkendanna sem um ræðir þjálfurunum til aðstoðar við frekari uppbyggingu á tæknilegri færni hvers skautara. Með þessu móti munu þjálfarar enn geta metið stöðu iðkenda og byggt þá upp eins og verið hefur fram til þessa.

Þjálfurum verður skylt að meðhöndla þessi gögn sem trúnaðarupplýsingar og vinnuskjöl. Heimilt er að upplýsa hvern og einn keppenda og forráðamenn hans um persónulega getu barns eftir hvert mót. Óheimilt er að dreifa þeim til þriðja aðila sem ekki hefur með iðkandann að gera þ.e.a.s. ekki verður heimilt að gefa upp upplýsingar um aðra innan keppnisflokksins eða dreifa upplýsingum um niðurstöðu keppisflokksins innan hvers félags. Brot á þessum vinnureglum munu teljast brot á persónuverndarlögum og munu þurfa vera afgreidd í samræmi við það.

Hvað varðar alla aðra keppnisflokka en Chicks og Cubs mun Skautasambandið halda utan um keppnisgögn með sama formi og verið hefur. Verða þær upplýsingar opinberar á vefsíðu Skautasambandsins. Með skráningu á mót samþykkja bæði skautarar og/eða forráðamenn í öllum keppnisflokkum, að undanskildum Chicks og Cubs, að upplýsingar um gengi verða opinberar og geymdar hjá Skautasambandi Íslands.
Þá gerir skautari/forráðamaður sér grein fyrir að teknar gætu verið ljósmyndir af keppendum á mótum af hálfu Skautasambandsins og þær birtar opinberlega á heimasíðu sambandsins og mögulega í fjölmiðlum.

Translate »