Skautaárið 2021 – Annáll ÍSS

Skautaárið 2021 – Annáll ÍSS

Skautasamband Íslands sendir skauturum, þjálfurum, aðstandendum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu. Á árinu var mótahald með betra móti en fyrra ár og gátu skautarar okkar tekið þátt á alþjóðlegum mótum eftir árshlé.

Það má með sanni segja að á árinu hafi orðið miklar framfarir, ýmis met slegin og stórum markmiðum náð. Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Við getum með stolti sagt að Ísland mun eiga fulltrúa á Evrópumeistaramóti Alþjóða skautasambandsins í byrjun næsta árs. Er það í fyrsta sinn sem íslenskur skautari vinnur sér inn keppnisrétt á mótinu.

Nú horfum við til framtíðar með ný og stærri markmið með tilhlökkun og eldmóð.

Ísold Fönn með fyrstu stökksamsetninguna með tveimur þreföldum stökkum

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir hefur um árabil búið og skautað erlendis.
Hún hefur síðasta árið búið í Champéry í Sviss og æft þar undir leiðsögn Stéphane Lambiel sem sjálfur er tvöfaldur heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum.

Eins og annars staðar í heiminum er minna um keppni á þessum tímum, en þó hefur hún fengið nokkur tækifæri til þess að spreyta sig á svellinu, en þetta var fyrsta tímabilið hennar í Junior Ladies.
Ísold Fönn setti Íslandsmet, í flokki Junior Ladies, á öllum sviðum.Hún setti stigamet í stuttu prógrammi með 56.81 stig, stigamet í frjálsu prógrammi með 94.38 stig og þar af leiðandi heildarstigamet með 151.19 stig.
Fyrri metin átti Aldís Kara Bergsdóttir frá 2019 og 2020.

Ekki nóg með stigametin þá lenti hún, fyrst íslenskra skautara, bæði þreföldu Lutzi (3Lz) og var með fyrstu samsetninguna með tveimur þreföldum stökkum, þrefalt Flip + þrefalt Toeloop (3F+3T).

Eins efnilegur skautari og Ísold Fönn er þá þurfti hún því miður að leggja keppnisskautana á hilluna, að sinni allavega. Er það gert vegna veikinda og þrálátra meiðsla sem gera það að verkum að hún getur ekki æft af því kappi sem hún vill næsta árið í það minnsta. Það er leiðinlegt fyrir skautafjölskylduna sjá á eftir svo ungum og efnilegum skautara. En við óskum henni alls hins besta og góðum bata.

RIG 2021 var innanlandsmót

Reykjavíkurleikarnir (RIG) fóru fram í Skautahöllinni í Laugardal dagana 29.-31. janúar. Sökum ferðabanns á milli landa og samkomutakmarkana var mótið haldið eingöngu fyrir íslenska skautara ásamt því að engir áhorfendur voru leyfðir. Mótið var því hluti af Bikarmótaröð ÍSS 2020-2021 og um leið voru Íslandsmeistarar ÍSS 2020 krýndir.

Eftir langt keppnislaust tímabil voru keppendur spenntir að komast loksins á mót og var stemmningin sérstaklega góð á mótinu. Streymt var í beinni útsendingu á netinu og gátu því foreldrar/forraáðamenn og aðstandendur fylgst með frammistöðu skautaranna.

Aldís Kara Bergsdóttir keppti í fyrsta sinn í flokki Senior Women (Fullorðinsflokkur kvenna) á mótinu. Hún sagði þá skilið við glæsilegan feril í Junior (Unglingaflokki) með mörgum Íslandsmetum ásamt því að vera fyrsti íslenski skautarinn sem keppti á Heimsmeistaramóti unglinga. Hún kom sterk inn á sínu fyrsta móti og setti Íslandsmet á öllum sviðum, bæði í stutta og frjálsa prógramminu og þar af leiðandi í heildarstigum líka.

Bikarmeistarar ÍSS 2021

Á Vormóti ÍSS, sem fram fór í Egilshöll, lauk Bikarmótaröð ÍSS 2020-2021 en mótið var það síðasta sem taldi til stiga og var nýr bikarmeistari krýndur við virðulega athöfn.

Að þessu sinni var það lið Skautafélags Akureyrar sem varð Bikarmeistari ÍSS árið 2021 með 103 stig. Þetta er í annað sinn sem Skautafélag Akureyrar hreppir titilinn.

22. Skautaþing Skautasambands Íslands

Skautaþing ÍSS var haldið þann 1.maí Þinggestir voru um 36 manns. Þar sem að samkomutakmarkanir miðuðust á þeim tíma við 20 manns var þinggestum skipt í tvö sóttvarnarhólf. Að þeim sökum var lagt til að þingnefndir myndu ekki stafa í hópum heldur væru öll mál rædd beint úr pontu.

Kosið var í nýja stjórn sambandsins.
Jóhanna Helga Þorkelsdóttir fékk viðurkenningu fyrir sjálfboðaliðastörf sín. Mótanefnd ÍSS veitir á ári hverju viðurkenningu til sjálfboðaliða og fá þau til þess tilnefningar frá aðildarfélögum ÍSS.

Skautafélagið Jökull, sem stofnað var í janúar sl., hélt erindi þar sem þau kynntu sig og starfið sitt ásamt markmiðum og framtíðarsýn. Núverandi aðildarfélög ÍSS tóku vel á móti þeim og þeirri frábæru viðbót sem félagið kemur með í skautafjölskylduna.

Á þinginu voru fjórir aðilar sæmdir Silfurmerki ÍSS:

Helga Kristín Olsen
Þóra Gunnarsdóttir
Erlendína Kristjánsson
Sigrún Inga Mogensen

María Fortescue fær alþjóðleg yfirdómararéttindi

Í júlí lauk María Fortescue prófi hjá Alþjóða skautasambandinu, ISU, sem gaf henni réttindi sem alþjóðlegur yfirdómari (e. international referee). Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur dómari tekur prófið og er María því fyrsti íslenski dómarinn sem fær réttindi sem alþjóðlegur yfirdómari.

Æfingabúðir ÍSS á Akureyri

Skautasamband Íslands hélt æfingabúðir á Akureyri í ágúst fyrir skautara í afrekshópum ÍSS. Æfingabúðirnar fóru vel fram og var hver dagur nýttur vel. Patrick O’Neil kom til okkar á ný, eftir smá covid hlé, og samhliða æfingabúðunum bauð ÍSS áhugasömum þjálfaraefnum að taka þátt og fylgjast með.

Nebelhorn Trophy – Aldís Kara Bergsdóttir með lágmörk fyrir Evrópumeistaramót í frjálsu prógrammi

Aldís Kara Bergsdóttir keppti í september á Nebelhorn Trophy sem fór fram í Oberstdorf í Þýskalandi.

Mótið á sér langa sögu og dregur árlega að sér marga þá fremstu í íþróttinni ásamt því að dómarar og tæknisérfræðingar/-stjórnendur mæta þangað til þess að endurnýja réttindi sín hjá Alþjóða skautasambandinu (ISU).

Þetta ár voru margir keppendur skráði til leiks í öllum greinum þar sem að um er að ræða síðasta mótið þar sem hægt er að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum 2022.

Í flokki Senior Women (kvennaflokki) hófu 37 skautarar keppni. Aldís Kara skautaði sterkt stutt prógram en var enn einu stigi frá lágmörkum þar. Í frjálsa prógramminu negldi hún hvert stökkið á fætur öðrum og uppskar hún 41.50 tæknistig og lágmörkin í frjálsu prógrammi fyrir Evrópumeistaramót komin í hús. Hún er fyrsti íslenski skautarinn til þess að ná þessu markmiði.

Junior Grand Prix

Vegna takmarkaðs fjölda gildra móta á tímabilinu 2020-2021 og mismiklu aðgengi skautara að æfingum yfir tímabilið vildi Skautasamband Íslands og Afreksnefnd ÍSS gera skauturum kleift að eiga jafna möguleika á vali á Junior Grand Prix mótaröðina 2021.

Allir skautarar sem hafa keppnisrétt í flokki Junior á tímabilinu 2021-2022 og vildu koma til greina sem fulltrúi ÍSS á JGP 2021 þurftu að senda inn upptöku af bæði stuttu og frjálsu prógrammi.

Þegar fresturinn til innsendingar var liðinnfór dómarapanell, sem samþykktur var af ÍSS, yfir öll innsend myndbönd. Tæknistigin sem gefin voru gildu eingöngu  fyrir val fulltrúa á JGP 2021.

Þetta fyrirkomulag gafst vel og er í skoðun að nota samskonar form fyrir val á JGP ár hvert.

Júlía Rós og Júlía Sylvía fulltrúar ÍSS á JGP 2021

Skautasamband Ísland sendi að þessu sinni tvo skautara til keppni fyrir hönd Íslands á samtals þremur mótum á mótaröðinni. Báðir skautararnir voru að keppa í fyrsta sinn á Junior Grand Prix mótaröðinni og sýndu þær báðar frábæra frammistöðu.

Dagana 18.-21. ágúst & 25.-28. ágúst fóru fram tvö mót með stuttu millibili í Courchevel í Frakklandi.
Júlía Rós Viðarsdóttir keppti á báðum þessum mótum fyrir hönd ÍSS. Þjálfari Júlíu Rósar er Darja Zajcenko en hún er einnig danshöfundurinn af prógrömmum hennar.
Ferðalagið í þennan skíðabæ í frönsku Ölpunum var strembið og tók sinn tíma að venjast því að æfa og keppa í svo mikilli lofthæð.

Á fyrra mótinu vann Júlía Rós sér inn 39.35 stig fyrir stutta prógrammið sitt og 16. sætið þann daginn. Í frjálsa prógramminu skautaði hún sig upp í 13. sætið með 72.19 stigum. Heildarstig hennar voru því 111.54 og 16. sætið í heildina.
Með þessum stigum sýndi Júlía Rós besta árangur Íslands á Junior Grand Prix. Fyrra metið átti Aldís Kara frá árinu 2019.

Dagana 22.-25. september fór fram síðasta mótið á mótaröðinni sem Ísland á fulltrúa á í Ljubljana í Slóveníu.
Þar keppti Júlía Sylvía Gunnarsdóttir fyrir hönd ÍSS og ferðaðist hún til Slóveníu með þjálfara sínum Lorelei Murphy ásamt liðsstjóra frá ÍSS.
Fyrir stutta prógrammið fékk Júlía Sylvía 28.56 stig og 29. sætið þann daginn. Fyrir stutta prógrammið fékk hún svo 56.39 stig og færði hún sig upp í 27. sætið þann daginn. Heildarstig Júlíu Sylvíu voru því 84.95 og 28. sætið samanlagt.

Special Olympics á Finlandia Trophy

Fyrir nokkrum árum var Special Olympics móti bætt við dagskránna á Finlandia Trophy og hafa íslenskri skautarar að sjálfsögðu tekið þátt á þeim hluta mótsins frá upphafi.

Í ár var engin breyting þar á þar sem að fjórir keppendur frá skautadeild Aspar eru í Finnlandi og hafa lokið keppni.
Bjarki Rúnar Steinarsson keppti í Level 1 karla og hafnaði í fyrsta sæti
Snædís Ósk Egilsdóttir keppti í Level 1 kvenna og hafnaði í fyrsta sæti
Þórdís Erlingsdóttir keppti í Level 2 kvenna og hafnaði í öðru sæti
Nína Margrét Ingimarsdóttir keppti í Level 3 kvenna og hafnaði í fyrsta sæti

Eins og sjá má stóð hópurinn sig með eindæmum vel og voru Íslandi, Skautasambandi Íslands og Special Olympics á Íslandi til sóma.

Aldís Kara tryggði keppnisrétt á Evrópumeistaramóti ISU fyrst íslenska skautara

Finlandia Trophy er gríðarlega stórt mót og hefur verið hluti af Challenger Series mótaröðinni hjá ISU til margra ára.

Aldís Kara Bergsdóttir mætti til keppni, en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur skautari keppir í Senior Women á mótinu.

Á laugardegi keppti Aldís Kara með stutt prógram.
Hún var 27. skautarinn inn á ísinn í hennar keppnisflokki og keppti þar við marga af fremstu skauturum heims.
Hún negldi öll stökkin og pírúetturnar og fékk fyrir það 25.15 tæknistig og 45.45 stig í heildina og 23. sætið þann daginn. Nýtt Íslandsmet í stuttu prógrammi í fullorðinsflokki kvenna (Senior Women) en fyrra met átti Aldís Kara sjálf frá því í janúar á þessu ári.

Með 25.15 tæknistigum í stuttu prógrammi vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum. En lágmarks tæknistigin í stuttu prógrammi fyrir það mót eru 23.00 stig.

Tveimur vikum áður hafði Aldís Kara náð lágmörkum í frjálsu prógrammi á Nebelhorn Trophy.

Aldís Kara er fyrsti íslenski skautarinn til þess að ná lágmörkum inn á Evrópumót ISU.

Framundan er undirbúningsvinna fyrir Evrópumótið en það fer fram í Tallinn, Eistlandi, 10.-16. janúar nk.

Íslandsmeisatarar 2021

Íslandsmeistaramót ÍSS 2021 fór fram í Skautahöllinni í Laugardal í nóvember. Mótið fór fram með góðu móti, en samkomutakmarkanir og smithólf settu svip sinn á framkvæmdina.

Íslandsmeistarar ÍSS 2021 eru:

Advanced Novice: Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir

Junior Women: Júlía Rós Viðarsdóttir

Senior Women: Aldís Kara Bergsdóttir

Skautakona ársins 2021

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar var varlin skautakona ársins 2021. Þetta er í þriðja sinn í röð sem hún hlýtur titilinn.

Kjör íþróttamanns ársins fór fram með óvenjulegu sniði. En tilkynnt var um efstu sætin í beinni útsendingu á RÚV. Að því loknu kom í ljós að Aldís Kara var 12. í röðinni um titilinn sem er frábært árangur fyrir hana sem og skautaíþróttir.

Aldís Kara er verðugur fulltrúi skautaíþrótta þar sem hún sýnir ávallt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur ekki látið heimsfaraldur stöðva sig og er jafnvel enn staðfastari í sínum markmiðum en áður, en þau voru að ná lágmörkum inn á Evrópumeistaramót og Heimsmeistaramót.

Að lokum

Það var gleðiefni að hægt var að halda út venjulegu mótahaldi að mestu á þessu ári ásamt því að landslið ÍSS gat keppt á erlendri grundu að einhverju leiti, að minnsta kosti seinni part ársins.

Við horfum bjartsýn fram á við og tökum spennt á móti nýju ári. Á fyrstu mánuðum á nýju ári eru, líkt og vanalega, stærstu alþjóðlegu viðburðir á skautadagatali ÍSS. Ber þar helst að nefna Evrópumeistaramót ISU, sem fram fer í Eistlandi, Norðurlandamóti, sem fram ver í Danmörku, og RIG sem haldið er af ÍSS í Laugardal. Á sama tíma hefjast svo Ólympíuleikar í Kína sem verður spennandi að fylgjast með.

Þó svo að enginn geti sagt fyrir um framhaldið horfum við björtum augum til næsta árs og tækifæranna sem þá bjóðast.

Stjórn ÍSS vill koma á framfæri þakklæti til allra sem komið hafa að vinnu ÍSS síðastliðið ár; Sjálboðaliðar, nefndarmenn, starfsmenn, keppendur, þjálfarar, stjórnir félaga, foreldrar og aðrir aðstandendur hafa hjálpast að við að gera umhverfi íþróttarinnar sem best og heilbrigðast og er það von stjórnar að sú vinna muni halda áfram til enn betri vega.

Translate »