Haustmót ÍSS 2021

Haustmót ÍSS 2021

Um síðastliðna helgi fór fram Haustmót ÍSS 2021. Mótið er fyrsta mót ÍSS á tímabilinu og jafnframt fyrsta mótið í Bikarmótaröð ÍSS 2021-2022.
Mótið fór vel fram og má hrósa mótsstjórn fyrir vel unnin störf.

Mótið hófst á laugardagsmorgni þar sem að keppendur í Basic Novice stigu á ísinn. Til keppni voru skráðir 10 skautarar sem komu frá öllum þremur félögunum. Eingöngu er keppt með frjálst prógram í keppnisflokknum og réðust því úrslit strax fyrsta daginn. Sigurvergari Basic Novice var Indíana Rós Ómarsdóttir, SR, með 23.73 stig. Önnur var Berglind Inga Benediktsdóttir, SA, með 22.81 stig og sú þriðja var Elva Ísey Hlynsdóttir, Fjölni, með 21.48 stig.

Næstar á ís voru skautarar úr Intermediate Women. Sá flokkur keppir einnig bara með frjáls prógram. Að þessu sinni var keppnisflokkurinn stærri en áður með 7 skautara skráða til leiks. Það er gaman að sjá að hópurinn er að stækka þar sem að þetta er skemmtilegur keppnisflokkur þar sem að auðvelt er fyrir skautara að sína hvað í þeim býr án takmarkana.
Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir, frá SA, kom sá og sigraði á sinni fyrstu keppni í keppnisflokknum og á sinni fyrstu keppni eftir nokkuð hlé frá skautaiðkun. Hún hlaut að launum 42.51 stig fyrir frammistöðu sína og sigraði örugglega. Önnur var Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni, með 31.76 stig. Rakel Sara Kristinsdóttir, Fjölni, kom þar rétt á eftir með 30.51 stig sem færði henni þriðja sætið. En Sandra Hlín Björnsdóttir, einnig frá Fjölni, var fjórða innan við hálfu stigi á eftir Rakel Söru með 30.09 stig.

Eftir hlé var komið að efstu keppnisflokkum mótsins til þess að sýna stuttu prógrömmin sín.
Advanced Novice stúlkurnar hófu leikinn. Þrír skautarar kepptu sín á milli um þrjú verðlaunasæti. Fór það svo þennan daginn að Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, var efst eftir stutt prógram með 27.89 stig. Önnur var Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, með 25.02 stig og sú þriðja eftir daginn var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, með 15.90 stig.

Síðasti keppnisflokkurinn að þessu sinni var Junior Women. Þrír skautarar voru skráðir til keppni og komu þeir allir frá sitt hvoru félaginu.
Efst eftir keppni með stutt prógram var Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, með 40.76 stig. Önnur var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, með 37.76 stig, en það er persónulegt met hjá henni. Sú þriðja var svo Edda Steinþórsdóttir, SR, með 20.91 stig, en Edda er á sínu fyrsta ári í Junior Women.
Júlía Rós og Júlía Sylvía eru báðar ný búnar að keppa á stórum alþjóðlegum mótum og var gaman að sjá loksins keppnisprógröm tímabilsinshjá þeim hér á Íslandi.

Að lokinni keppni á laugardegi bauð ÍSS skauturum frá Skautadeild Aspar að koma og halda sýningu.
Skautadeild Aspar fagnaði einmitt þann dag, 2 október 2021, 10 ára afmæli sínu. Skautarar deildarinnar sýndu listir sínar bæði með einstaklingsprógrömmum og paradansi, en þeir skautara keppa á Evrópumóti Special Olympics í Finnlandi í vikunni, ásamt því að stórskemmtilegt hópatriði var sýnt. Dómarar á panel höfðu orð á því hvað uppbyggingin á prógrömmum skautaranna var gerð til þess að undirstrika styrkleika allra og allir fengu að njóta sín á ísnum.
Skautasamband Íslands óskar skautadeild Aspar innilega til hamingju með 10 ára starfsafmælið og þakkar gott samstaf í gegnum árin.

Á sunnudagsmorgun var haldið áfram með keppni á Haustmóti.

Keppendur í Chicks og Cubs hófu leikinn þann daginn. En í þeim keppnisflokkum eru stig ekki gefin upp opinberlega og ekki er raðað í sæti. Allir keppendur fá þátttökuviðurkenningu. Sýndu keppendur góðar framfarir ásamt því að við sáum nokkra nýja keppendur stíga á ísinn í fyrsta sinn á ÍSS móti.

Keppendur í Intermediate Novice Girls voru eingöngu tveir að þessu sinni. Þar sigraði Salka Rannveig Rúnarsdóttir með 23.54 stig og önnur var Kristbjörg Eva Magnadóttir með 17.00 stig. Þær eru báðar frá Skautafélagi Akureyrar.

Að lokum var svo komið að keppni í frjálsu prógrammi hjá efstir keppnisflokkunum. Þar er skautað í öfugri úrslitaröð frá keppni með stutt prógram.
Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, var efst í frjálsu prógrammi á persónulegu stigameti með 48.63 stig, önnur í frjálsa prógramminu var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, með 47.72 stig og sú þriðja var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, með 27.70 stig.
Lokaúrslit voru þau að Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, sigraði með 75.61 í heildarstig. Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, var önnur með 73.65 heildarstig, persónulegt met hjá henni. Og þriðja var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR, með 43.60 heildarstig.

Junior Women lokuðu svo mótinu með keppni í frjálu prógrammi.
Þar var Júlía Rós efst með 61.14 stig, önnur var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir með 56.14 stig og þriðja var Edda Steinþórsdóttir með 32.87 stig.
Lokaúrslit voru þau að Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, sigraði með 101.88 heildarstig. Önnur var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, með 93.90 heildarstig. Og sú þriðja Edda Steinþórsdóttir með 53.78 heildarstig.

Að þessu sinni var enginn keppandi í Senior Women. En Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið að keppa þétt nú á haustmánuðum og tók hvíld þessa helgina fyrir keppni á Challenger Series móti ISU sem fram fer í Finnlandi um næstu helgi. Það verður spennandi að fylgjast með henni vinna að markmiðum sínum.

Skautasamband Íslands óskar öllum keppendum til hamingju með frábæran árangur á öllum sviðum. Við vonumst til þess að geta haldið úti frekar venjulegu keppnistímabili og næst á dagskrá er Íslandsmót ÍSS sem fram fer í Laugardal í nóvember.

Translate »