Vormót ÍSS 2019

Vormót ÍSS 2019

Aldís Kara með nýtt Íslandsmet í Junior Ladies

Um helgina fór fram Vormót ÍSS í Skautahöllinni í Laugardal og þar með er keppnistímabili ÍSS lokið að þessu sinni. Skautasamband Íslands heldur fjögur mót yfir veturinn og er alltaf spennandi að sjá hvað keppendur geta á Vormótinu þar sem tímabilinu er að ljúka og margir að prófa nýja hluti og jafnvel að færast upp í nýjan keppnisflokk.

Keppni hófst á laugardegi þar sem keppt var í öllum flokkum. Verðlaun eru ekki veitt í yngstu flokkunum; Chicks Girls, Chicks Boys og Cubs og fengu þau því þátttökuviðukenningar afhentar og skemmtilegt frá því að segja að keppt var í fyrsta skipti í um 10 ár í báðum kynjum á Skautasambandsmóti.

Í Basic Novice hefur Kristín Jökulsdóttir frá SR verið sigursæl í þeim í vetur. Á því varð engin breyting og stóð hún uppi með gullið eftir daginn. Í öðru sæti varð Magdalena Sulova frá SA og í því þriðja Sædís Heba Guðmundsdóttir, einnig frá SA en þær voru að keppa í fyrsta skipti í flokknum.

Intermediate Novice var síðan síðasti flokkur fyrir hlé. Þar varð sigurvegari Edda Steinþórsdóttir, SR, og í öðru sæti varð Telma Mary Arinbjarnardóttir, SA. Intermediate Ladies kepptu svo eftir hlé og lauk með sigri Elísabetar Ingibjargar Sævarsdóttur frá SA en í öðru sæti varð Þórunn Löve, SR, og þriðja varð Hugrún Anna Unnarsdóttir, SA.

Síðan hófst keppni í ISU flokkunum en þeir keppa með tvö prógröm og skauta því bæði laugardag og sunnudag. Í Advanced Novice stóð Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, efst eftir daginn með 27.47 stig. Eydís Gunnarsdóttir, SR, stóð önnur með 24.70 og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA, þriðja með 24.48 stig. Í Junior Ladies tróndi Aldís Kara Bergsdóttir, SA, efst með 41.37 stig og nýtt stigamet í stutta prógraminu í þessum flokki en fyrra metið hafði Kristín Valdís Örnólfsdóttir sett í fyrra (2018). Aldís lenti fullgildu þreföldu Salchowi í samsetningu í glæsilegu prógrami. Rétt á eftir henni kom Marta María Jóhannsdóttir, SA, með 40.91 stig. Það var því ljóst að von yrði á æsispennandi keppni í þessum flokkum þar sem allt gat gerst.

Á sunnudeginum fór fram keppni með frjáls prógram í ISU flokkum og hófst með keppni í Advanced Novice. Eftir að allir keppendur höfðu skautað var ljóst að Júlía Rós hélt og jók forystuna í rúm 10 stig yfir næstu stúlku. Þær Freydís Jóna og Eydís skiptu um sæti og voru úrslit því að Júlía Rós Viðarsdóttir sigraði með 74.05 stig, Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir varð í öðru með 63.24 stig og Eydís Gunnarsdóttir varð þriðja með 61.86 stig.

Þá var komið að Junior Ladies og skautaði Marta María fyrst. Hún opnaði prógramið á glæsilegum tvöföldum Axel í samsetningu með öðru tvöföldu stökki en féll svo í þrefalda Salchowinu. Marta María lauk prógraminu sínu með glæsibrag á 107.08 stigum sem eru á pari við hennar bestu stig í vetur. Það var því ljóst að Aldís Kara þurfti að bretta upp ermarnar til að halda forskotinu frá fyrri deginum. Og það hún gerði! Þrátt fyrir að falla í opnunar þrefalda Salchowinu gaf hún bara í framkvæmdi m.a. tvöfaldan Axel í þriggja stökka samsetningu sem er eitthvað sem við sjáum ekki oft á Íslandi. Það var því mikil spenna í höllinni meðan beðið var eftir stigunum. Aldís Kara endað daginn og keppnistímabilið með stæl og setti nýtt íslenskt stigamet í flokknum upp á 112.81 stig og bætti þar með sitt eigið met frá því á Reykjavíkurleikunum (RIG) í janúar sl.

Um leið og Skautasamaband Íslands óskar keppendum til hamingju með frábæran árangur þá þakkar sambandið einnig fyrir skemmtilegt og spennandi tímabil og hlakkar til þess næsta.

Translate »