Eva Dögg verður fulltrúi Íslands á Háskólaleikunum 2019

Eva Dögg verður fulltrúi Íslands á Háskólaleikunum 2019

Á næstu dögum mun Eva Dögg Sæmundsdóttir, keppandi í senior, leggja land undir fót og ferðast alla leið inn í iður Rússlands til Krasnoyarsk í Síberíu. Eva mun þar taka þátt, fyrir Íslands hönd, á Háskólaleikunum 2019 eða Universiade 2019.

Universiade eru fjölíþróttaleikar sem eru einungis opnir háskólastúdentum og miðast aldurskröfur við það. Leikarnir eru settir upp eins og stórleikar sem íslenskir íþróttamenn hafa verið að fara á líkt og EYOF og Ólympíuleikar. Leikarnir eru haldnir annað hvert ár og eru sér sumar- og vetrarleikar.

Íþróttamennirnir munu koma til með að búa í glæsilegu íþróttaþorpi á meðan á leikunum stendur en von er á um 3000 íþróttamönnum frá 22 löndum auk fylgdarfólks. Keppt er í 11 íþróttagreinum á leikunum, þar af í öllum greinum listhlaupsins ásamt samhæfðum skautadansi.

Eva er eini keppandinn frá Íslandi í þetta skiptið og mun bera fána Íslands inn á leikvanginn í setningarathöfninni 2. mars. Þetta er jafnframt í fyrsta skiptið sem íslenskur skautari fer á Háskólaleikana og verður spennandi að fylgjast með reynslu Evu af þátttökunni en hún ætlar að vera með Snapchat reikning Skautasambandsins á meðan á ferðalaginu stendur.

Keppnin í listhlaupi hefst 6. mars með keppni hjá pörum og körlum. Keppni hjá konunum í stutta prógraminu verður 8. mars ásamt keppni í samhæfðum skautadansi og úrslitum í ísdansi. Keppni í listhlaupinu lýkur síðan 9. mars og verður Gala sýning daginn eftir. Lokahátíð leikanna verður síðan 12. mars.

Heimasíðu leikanna má finna hér

Facebook síða leikanna er hér

Translate »