Skautasamband Íslands

Þóra Sigríður Torfadóttir

Varaformaður
Skautafélags Akureyrar

Kanntu að skauta? Eiginlega ekki. Ég fór á námskeið og lærði undirstöðuatriðin sem krakkarnir voru að læra. Auðvitað skautaði ég eitthvað sem krakki.
Hverju sætir áhugi þinn á íþróttinni? Við bjuggum í Kanada og þetta var íþrótt sem boðið var upp á að vetri til líka og dæturnar fengu bilaðan áhuga á íþróttinni. Sú eldri byrjaði 3ja ára og þegar sú yngri var 7 mánaða var ekki lengur hægt að halda henni lengur frá ísnum og hún fékk að skríða meðfram battanum á æfingum hjá þeirri eldri. Hún byrjaði svo sjálf 18 mánaða.
Hvað er það helst sem þú gerir innan félagsins? Við komum að vori til og strax haustið eftir byrjaði ég að hjálpa til að ganga frá eftir mót og hjálpa til við laus verkefni. Þá voru stelpurnar bara í skautaskólanum. Ég sá um blómastelpurnar svona fyrst og var í mótastjón félagsins og tók að mér uppsetningu fyrir sýningar og svoleiðis og svo í fjáröflun. Svo bauð ég mig fram í stjórn og er búin að vera þar í 3 ár. Annars geri ég eiginlega allt sem er tilfallandi. Við bæði hjónin höfum reynt að hjálpa eins og við getum.

Hvað fékk þig til að byrja að bjóða þig fram til sjálfboðaliðastarfa? Mér finnst það eiginlega alveg sjálfsagt. Margar hendur vinna létt verk. Það munar svo miklu þegar allir hjálpast að þá gengur þetta svo miklu betur.
Hve miklum tíma verð þú í sjálfboðaliðastarf í skautum? Töluverðum.
Hvað finnst þér mest gefandi við að vera sjálfboðaliði? Að sjá ánægju hjá öðrum og að hlutirnir hafi gengið vel upp. Maður hafi skilað góðu verki og maður heyrir aðra utanaðkomandi tala jákvætt um þau verk sem maður hefur komið að.
Er eitthvað úr starfi þínu sem sjálfboðaliði minnisstæðara en annað? Bara hvað þetta er gaman. Hvað foreldrarnir eru léttir og hvað myndast skemmtilegur mórall.
Telur þú að þeir sem bjóða fram tíma sinn þurfi að hafa eitthvað sérstakt til að bera? Jákvæður andi hjálpar alltaf til og maður verður að vera tilbúinn til þess því ef þú ert í sjálfboðavinnu þá er þetta líka eitthvað sem er gott fyrir börnin þín þ.e. þetta er eiginlega vinna fyrir börnin. Ef börnin þín sýna einhverri íþrótt einhvern áhuga þá finnst mér ég eiga að sýna stuðning með að hjálpa til. Tengir mann á annan hátt við börnin. Ef krakkarnir sjá að foreldrarnir eru samstíga þá er það léttara fyrir börnin.

Telur þú tíma þínum vel varið? Já!

Hvað viltu segja við þá sem hafa ekki enn boðið sig fram til starfa? Þú þarft ekki að vita neitt um íþróttina, þú lærir, kynnist fólki og það verður meiri nánd við íþróttina og börnin. Þú skilur þá allt sem er á bak við þetta því þessi vinna sem gerist á bak við tjöldin er sú sem gerir barninu þínu kleift að stunda íþróttina.
Eru einhver hvatningarorð sem þú vilt koma á framfæri til annarra sem langar að vera með en eru ekki viss um að þeirra sé þörf? Hér vinna allir rosalega vel saman og gott að fá fólk til að aðstoða, sérstaklega eftir mót og svoleiðis.

Translate »