Skautasamband Íslands

Katla Rún Ísfeld – DRO

Á panel á keppnum situr fjöldinn allur af fólki sem hafa mismunandi verkefni á meðan á keppninni stendur. Sumir sitja með heyrnartól í hnapp á meðan aðrir eru einir og sér.

Ein starfstétt á tæknipanel eru DRO – Data and Replay Operators.
Tveir starfsmenn sinna þessu starfi á mótum en þeir kunna verksvið hvors annars og geta gengið í bæði störfin. Replay Operator klippir búta úr vídeói hvers keppanda fyrir sig að ósk tæknipanels og undirbýr fyrir endurspilun að prógrami loknu. Data Operator slær in ákvarðanir tæknipanelsins um hvaða element hafa verið framkvæmd og erfiðleikastig þeirra.

Þetta er skemmtilegt verkefni þar sem þörf er á góðri samvinnu, enskukunnáttu og hæfileika til að geta unnið undir álagi. Námið er stutt og fer að mestu fram í framkvæmd eftir stutt námskeið þar sem kennt er á tölvukerfið sem fylgir starfinu.

 

______________________________________

Reglugerð ÍSS segir um störf DRO:
ÍSS sér um menntun tæknifólks.
Allir starfsmenn skulu hafa gott hald á ensku, bæði í riti og máli, temja sér góðan samskiptamáta og geta starfað í hópi undir álagi.
Tæknifólk skal hafa náð 18 ára aldri og vera vel tölvufært.
Æskilegt er að DRO séu fyrrverandi skautarar eða reglulegir starfsmenn í íþróttinni, t.d. þjálfarar eða dómarar, en til eru dæmi um tæknifólk sem ekki hefur bakgrunn í íþróttinni.
Tæknifólk getur sem þjálfarar ekki fylgt keppendum á mót sem þeir starfa á.

__________________________________

Langar þig að vita meira?
Langar þig að vera með á næsta námskeiði og læra að vera tæknimanneskja eða dómari?
Endilega hafðu samband : info@iceskate.is

Skautaðirðu sjálf: Ég var lengi í einstaklingsskautun en svo var þessum hópi eldri stúlkna svoldið ýtt út í synchro með Norðurljósunum og ég skautaði allan tíman meðan þau voru. Ég fór með þeim að keppa erlendis sem var æðislegt. Það var líka gefandi að hafa prófað bæði einstaklings og synchro enda mjög ólíkar birtingarmyndir af íþróttinni og krefst misjafns af manni. Þetta hélt stelpunum líka lengra í íþróttinni t.d. þeim sem vildu ekki æfa rosalega mikið eða sem áttu erfitt með einstaklingselementin.

Hverju sætir áhugi þinn á íþróttinni: Ég byrjaði þegar ég var 10 ára. Vinkona mín var að æfa og vildi að ég prófaði og það varð ekki aftur snúið. Hún fór með mig á almenning og eftir það byrjaði ég að æfa.

Hvað fékk þig til að verða DRO: Ég vildi haldast einhvern vegin inni í íþróttinni því mig langaði ekki að segja skilið við hana. Langaði líka að fylgjast með hvað stelpurnar voru að gera og að viðhalda áhuganum þótt ég gæti ekki sjálf stundað íþróttina. Sunna Björk Mogensen var þjálfari minn og sjálf DRO og talaði svo vel um þetta. Ég hafði einhvern vegin ekki áhuga á að verða dómari en þetta hljómaði áhugavert og ég fór á námskeið hjá henni og var svo hent í djúpu laugina. Mér finnst þetta mjög gaman og fjölbreytilegt.

Hvað þarf maður til þess að bera til að verða DRO: Maður þarf að vera góður að vinna í hópi enda erum við tvær og kunnum starf hvorrar annarrar og vinnum svo náið með tæknipanelnum. Við erum með hann í eyrunum allan tíman. Þetta er ekkert stressandi þannig séð en maður þarf að vera fljótur að greiða úr mistökum eða laga ef þarf. Maður þarf að geta unnið undir álagi og kunna að laga.

Hvað er skemmtilegast við að vera DRO: Það er svo gaman að vinna í góðum hópi eins og við höfum nú. Það er svo skemmtilegt í pásum, mikið hlegið og einnig gaman að fara til Akureyrar á mót og vera þar með þessun hópi.

Hvað er það minnisstæðasta úr starf þínu sem DRO: Ekkert svo sem sérstakt sem hefur komið fyrir mig en maður hefur heyrt sögur frá öðrum. Ekkert sem ekki var hægt að laga eftirá en fékk hjartað til að slá örar.

Hvað gleður þig í starfi þínu sem DRO: Þegar skautari nýtur þess að vera á ísnum og þegar þær reyna við eitthvað erfitt sem þær eru kannski á mörkunum að hafa en reyna samt því það hlýtur að koma á endanum og gaman að sjá þegar það gerist svo og maður samgleðst þeim.

Eru einhver hvatningarorð sem þú vilt koma á framfæri til annarra: Maður kynnist svo mikið af góðu fólki sem gaman er að vinna með og heldur mér sem mest inni. Ég ætla mér að halda áfram að starfa við þetta og stefni á að víkka sjóndeildarhringinn með því að læra að vinna á mótum erlendis þannig að kannski er námskeið í Frankfurt í náinni framtíð.

Translate »