Fararstjóri hjá Skautafélagi Reykjavíkur
Kanntu að skauta? Nei! Skautaði sem krakki en mér hefur farið mjög mikið aftur síðustu ár. Ég er mikil skíðamanneskja og virðist aldrei gleyma því en með skautana virðist eins og mér fari aftur.
Hverju sætir áhugi þinn á íþróttinni? Börnin sáu skautakennslu auglýsta í sjónvarpinu og ákváðu alveg sjálfar að þær vildu prófa. Þær voru í fimleikum og voru 7 og 8 ára. Önnur var eina önn en hin er búin að vera síðan þá eða í 5 ár. Hún fann sig svo innilega að það bara klikkaði eitthvað í hausnum á henni.
Hve miklum tíma verð þú í sjálfboðaliðastarf í skautum? Ég ver miklum tíma í þessi störf. Ég er líka sjálfboðaliði í ÍR á mótum því hin dóttirin er í frjálsum íþróttum og geri svolítið mikið þar líka.
Hvað er það helst sem þú gerir innan félagsins? Ég hef verið mótstjóri núna í vetur, að manna mót, í sjoppunefnd foreldrafélagsins, farastjórn til Akureyrar, dómarakaffi, tiltekt, stjórnarstörf og fleira. Bara allt sem til fellur ef þarf.
Hvað fékk þig til að byrja að bjóða þig fram til sjálfboðaliðastarfa? Á fyrsta mótinu sem dóttir mín tók þátt í vantaði fólk í sjoppuna á mótinu, var undirmannað og ég bara stökk inn.
Hvað viltu segja við þá sem hafa ekki enn boðið sig fram til starfa? Það eiga allir sem eiga börn í íþróttum að bjóða sig fram í sjálfboðaliðastörf. Það þarf ekki að vera lengi en það munar rosalega ef það eru margir sem koma að. Fer allt miklu betur fram og er hægt að manna fleiri stöður. Fólk getur einbeitt sér að einni stöðu í stað þess að sinna mörgum.
Hvað finnst þér mest gefandi við að vera sjálfboðaliði? Gaman að vera innvikluð í hlutina og þekkja fólkið, skautarana sem eru að æfa og svoleiðis. Maður kynnist skauturunum í ferðunum til Akureyrara t.d. Manni er treyst fyrir börnunum. Við þurfum að geta fætt börnin, gera nesti og svo vera öxl ef illa gengur. Skemmtilegasta mótið á árinu hjá stelpunum er að fara norður. Þær eru svo kátar í ferðinni. Maður þekkir þær flest allar mjög vel og getur þá svoldið gengið að þeim þegar þarf að manna mót.
Er eitthvað úr starfi þínu sem sjálfboðaliði minnisstæðara en annað? Það er náttúrurlega svo skemmtilegt í keppnisferðunum til Akureyrar. Stelpurnar sjá um skemmtiatriði á kvöldvökunum og nota tækifærið og gera grín að þjálfurunum t.d. það getur verið ótrúlega skemmtilegt. Samheldnin í félaginu kemur svo vel fram og svo þarf að reka þessar eldri í rúmið þegar svefngalsinn tekur völdin.
Telur þú að þeir sem bjóða fram tíma sinn þurfi að hafa eitthvað sérstakt til að bera? Fólk er kannski öflugra á haustin þegar starfið er að byrja en eftir því sem líður á veturinn er erfiðara að fá fólk til að hjálpa til einhverra hluta vegna. Þess vegna vill þetta oft lenda á höndum fárra. Fólk þarf að vera tilbúið að taka til hendinni svo álagið minnki á hina. Það er ekki hægt að halda úti íþróttastarfi í félögunum á Íslandi nema með aðstoð foreldra þannig þetta er á okkar ábyrgð. Karlarnir mega vera duglegri, þetta eru ekki bara kvennastörf. Við höfum verið með karl stundum í dómarakaffi sem býr til æðislegar súpur. Það er svo margt sem fellur til að við getum notað alla. Þeir sem eru farastjórar í keppnisferðum og bara yfirleitt allir sem starfa fyrir félögun þurfa að sjá til þess að börnunum líði vel í íþróttinni. Maður tekur að sér mömmuhlutverkið fyrir þær sem eru ekki með mömmur sínar með sér. Það þarf að vera til staðar. Fólk þarf að geta treyst fararstjóranum fyrir börnunum sínum.
Telur þú tíma þínum vel varið? Já, ég kýs að gera þetta. Mér finnst þetta skemmtilegt.
Eru einhver hvatningarorð sem þú vilt koma á framfæri til annarra sem langar að vera með en eru ekki viss um að þeirra sé þörf? Mér finnst bara nauðsynlegt að ég hjálpi til í félaginu sem dóttir mín er íþróttamaður í. Það kann enginn neitt í byrjun en svo lærist það. Það er bara að mæta og ganga í verkin.