Fjáröflun hjá Skautadeild Asparinnar
Kanntu að skauta? Já. Ég hef ekki farið að skauta lengi. Tæknilega séð á ég að kunna það. Ég skautaði uppá Velli hjá Kananum. Þeir voru með svon gerviís. Var þar alla barnæskuna. Svo æfði ég í Laugardalnum áður en það svell var yfirbyggt. Ég keppti meira að segja.
Hverju sætir áhugi þinn á íþróttinni? Ég bjó á Reykjanesinu og það voru ekkert margar íþróttagreinar í boði. Í þessari íþrótt var svoldið glimmer. Ég er svoldil drag drottning í mér. Núna er ég með tvær stelpur í þessu. Þær byrjuðu í Birninum hjá Helgu (Olsen). Þær þurftu svolítið að æfa jafnvægi af því þær eru langveikar og styrkja fæturnar. Við fögnuðum því þegar Öspin stofnaði skautadeild og fylgdum Helgu þangað.
Hve miklum tíma verð þú í sjálfboðaliðastarf í skautum? Ég er í fjáröflun og að plana. Ég geri mjög mikið enda þurfum við mikla peninga til rekstursins. En það er rosa misjafnt hve tímafrek verkefnin eru.
Hvað er það helst sem þú gerir innan félagsins? Ég er í fjáröflun næstum eingöngu. Þar sem við þurfum mikið fjármagn til að borga öllum þjálfurunum og til þess þarf peninga sem æfingagjöldin ein standa ekki undir. Keppendur okkar keppa að mestu erlendis og hópurinn sem fer með nokkrum skauturum er frekar stór.
Hvað fékk þig til að byrja að bjóða þig fram til sjálfboðaliðastarfa? Öspin er rosalega lítið félag. Það þarf þrisvar sinnum fleiri þjálfara á ísinn og í öllum ferðum þarf fleiri með. Foreldrarnir í Öspinni skilja að það gerist ekkert nema með því að þeir geri það vegna þess hve marga þarf og einnig er allur kostnaður miklu meiri þannig að því meira sem við gerum sjálf því meiri kostnaði getum við haldið niðri.
Hvað viltu segja við þá sem hafa ekki enn boðið sig fram til starfa? Foreldrar eru í raun að halda kostnaði íþróttagreinarinnar niðri með því að vera sjálfboðaliðar. Þetta er ekki þjónusta sem maður greiðir fyrir, ef þetta væri það þá þyrfti maður að borga miklu meira. Þá gæti ég ekki boðið báðum börnunum mínum upp á þetta. Við verðum að brúa bilið og hvaðan á það að koma?
Hvað finnst þér mest gefandi við að vera sjálfboðaliði? Við erum stór á heimsvísu og erum með í umræðunni á heimsvísu. Þegar Ísland er á keppni í Special Olympics erlendis þá eigum við kannski helming keppenda. Það er vissulega gaman að að vera hluti af þessari frumkvöðlastarfssemi. Það sem það vonar er að skila góðu búi og að starf okkar skilji eitthvað eftir sig og það sé kominn stöðugleiki á t.d. dómarakerfið. Maður vonar að öll þessi vinna verði einhvers virði.
Er eitthvað úr starfi þínu sem sjálfboðaliði minnisstæðara en annað? Mótin eru yfirleitt mest minnisstæðust. Lokadagurinn og verðlaunaafhendingin þegar allir eru himinlifandi þá stynur maður og hugsar “Þetta var þess virði”.
Telur þú að þeir sem bjóða fram tíma sinn þurfi að hafa eitthvað sérstakt til að bera? Það geta allir aðstoðað. Það hafa allir eitthvað fram að færa. Fjáröflun, aðstoð á mótum, stjórn. Bara kannski að setja eitthvað ofan í poka. Sama hversu lítið það er, það geta allir hjálpað sama hversu lítilfjöllegt það virðist í fyrstu.
Telur þú tíma þínum vel varið? Foreldrarnir eru lang flestir með rosa góðan skilning á að án þeirra sjálfboðaliðastarfa gerist mest lítið. Stór hluti af mínu starfi er að brainstorma. Hvað getum við gert til að búa til meiri peninga? Hvernig getum við fengið fólk til liðs við okkur?
Eru einhver hvatningarorð sem þú vilt koma á framfæri til annarra sem langar að vera með en eru ekki viss um að þeirra sé þörf? Mættu! Mér er alveg sama hversu lítilfjöllegt það er. Það er enginn að gefa þér einkunn fyrir hve mikið eða merkilegt þú getur gert, mættu bara! Þetta er ekki skautakeppni og enginn er að gefa þér plúsa eða mínusa.