Skautasamband Íslands

Helga Lára Gísladóttir – Dómari

Á panel á keppnum situr fjöldinn allur af fólki sem hafa mismunandi verkefni á meðan á keppninni stendur. Sumir sitja með heyrnartól í hnapp á meðan aðrir eru einir og sér.

Sú starfstétt sem er best þekkt á panel eru Dómarar.
Á hverju móti eru frá 3 og upp í 9 dómarar. Það fer allt eftir stærð mótsins hversu margir dómararnir eru en það er alltaf oddatala. Meðal dómara er einn Yfirdómari (e.Referee) en hann ber ábyrgð á framkvæmd mótsins og að það sé farið eftir reglum.
Dómarar dæma gæði hvers elements fyrir sig sem og gæði framkvæmdarinnar

Þetta er skemmtilegt verkefni þar sem þörf er á samvinnu, góðri enskukunnáttu, hæfileika til að geta unnið undir álagi og að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir. 
Námið er krefjandi og getur tekið nokkur ár að ná góðri reynslu.
Það er mikilvægt að hafa góðan skilning á dómarakerfinu sem er notað hverju sinni, Alþjóðlega dómarakerfi ISU, IJS, eða Keppniskerfi Félaganna frá ÍSS.

______________________________________

Reglugerð ÍSS segir um störf Dómara:
ÍSS sér um menntun dómara.
Allir starfsmenn skulu hafa gott hald á ensku, bæði í riti og máli, temja sér góðan samskiptamáta og geta starfað í hópi undir álagi.
Nauðsynlegt er að dómarar hafi verið skautarar og verði að minnsta kosti 16 ára á árinu.

Æskilegast er að dómarar á landsdómarastigi starfi ekki jafnframt sem þjálfarar.
Dómari og yfirdómari getur ekki dæmt iðkendur sem hann þjálfaði fyrr en næsta keppnistímabil eftir að þjálfun lýkur. Dómarar og yfirdómarar geta sem þjálfarar ekki fylgt keppendum á mót sem þeir einnig starfa á. Dómarar og yfirdómarar sem starfa sem þjálfarar mega ekki dæma þá keppnisflokka sem þeir þjálfa.

__________________________________

Langar þig að vita meira?
Langar þig að vera með á næsta námskeiði og læra að vera tæknimanneskja eða dómari?
Endilega hafðu samband : info@iceskate.is

 

Skautaðirðu sjálf? Ég byrjaði að ég held 8 eða 9 ára í einstaklings en svo þegar Solla og Sunna byrjuðu með synchróið í Birninum þá byrjaði ég í því. Ég var alltaf í frjálsum íþróttum meðfram skautunum þannig að þegar ég byrjaði í menntaskóla þá fór ég alfarið yfir í frjálsar. Ég æfi ennþá frjálsar.

Hverju sætir áhugi þinn á íþróttinni? Við tvíburasystir mín fengum skauta í jólagjöf og byrjuðum þá.

Hvað fékk þig til að verða dómari? Datt eiginlega inn í það alveg óvart. Við vorum nokkrar sendar á námskeið og þá kviknaði áhuginn. Við fengum að prófa og æfa okkur og sitja og fylgjast með á panel og svo vorum við komnar á panel áður en varði. Ég hef líka áhuga á að læra DRO til að hafa fjölbreytnina. Ég fór á eitt námskeið í haust með Sigrúnu Mogensen en hef ekki prófað á panel.

Hvað þarf maður til þess að bera til að verða dómari? Maður þarf að vera einbeittur og fyrgjast með mörgum hlutum á sama tíma. Maður þarf að sjá hvað skautarinn er að gera og jafnframt punkta hjá sér glósur og hafa góða tilfinningu fyrir tónlistinni svo maður geti fylgst með hvernig skautarinn er að túlka hana og takt tónlistarinnar.
Það er allt öðruvísi að dæma listfengi heldur en elementin. Elementin er allt frekar auðvelt en hitt spilar meira inn á hvernig það snertir þig og maður þarf að vera með öll hugtökin á hreinu. Ég fylgist mikið með erlendum keppnum á Youtube og skoða protocol út frá því. Æfi mig þannig og glósa og ber svo saman við hvernig dómarar mótsins gerðu.

Hvað er skemmtilegast við að vera dómari? Ég kem alltaf að nýrri keppni og horfi á skautarana eins og ég sé að sjá stelpurnar í fyrsta skipti. Það væri gaman að geta séð fleiri ólíka skautara, kannski í framtíðinni ef ég kæmist til Frankfurt. Þá getur maður skoðað heiminn í gegn um íþróttina. Það eru meiri reglur í ÍSS kerfinu heldur en félagakerfinu og gaman hvað þau eru ólík. Félagakerfið er afslappaðra og allt aðrar áherslur en alltaf gaman að sjá pínu litlu krúttlegu stelpurnar sem eru að keppa í fyrsta skiptið. Gaman að geta brosað og glaðst með þeim. Að sama skapi er erfitt ef einhverjum gengur illa. Maður vill náttúrulega að öllum gangi vel.

Hvað er það minnisstæðasta úr starf þínu sem dómari? Nei ekkert sérstakt sem stendur uppúr.

Hvað gleður þig í starfi þínu sem dómari? Það er upplifun að sjá stelpurnar vera glaðar með það sem þær gera og gaman að geta lifað sig inn í það sem þær gera. Þetta er svo gaman og er allt öðruvísi en að sitja upp í stúku. Gaman að geta líka verið hluti af því að koma skilaboðum til skautaranna í gegn um prótokolin.

Eru einhver hvatningarorð sem þú vilt koma á framfæri til annarra? Ég sé ekki eftir því að hafa farið út í þetta. Endilega hafa samband við sambandið og fá að fara á námskeið. Það er svo gaman að kynnast fólki og líka kynnast erlendu dómurunum og reynsluheimi þeirra.

Translate »