Skautasamband Íslands

Elísabet Soffía Bender

Þjálfari yngri flokka hjá Skautafélagi Reykjavíkur

Hvernig var þinn skautaferill? Ég byrjaði 10 ára gömul í skautaskóla og keppti í C flokkum (Félagalínu) í einstaklings og fór síðan í samhæfðan skautadans, fyrst í Frostrósunum og svo í Norðurljósunum. Fór með þeim erlendis að keppa. Mér fannst það skemmtilegasta við samhæfðan skautadans var að við vorum alltaf að gera allt saman en í einstaklings var það bara ég sem átti alla athyglina. Það sem heillaði mig var grunnskautunin og mér fannst orðið svo leiðinlegt að stökkva og spinna þegar ég var orðin eldri.
Af hverju langaði þig að fara að þjálfa? Ég var eiginlega svoldið sett í þetta. Fannst þetta alltaf svolítið gaman. Ég var búin að prófa að fara í dómarann þegar ég var 15 ára en flutti mig yfir í þetta, vildi frekar hjálpa skauturum frekar en að dæma þá. Það var eitthvað sem ég hafði áhuga á, að hjálpa öðrum.
Hvaða þjálfaramenntun hefurðu? Ég er með almenna stig ÍSÍ 1 og 2 og sérgreinahluta ÍSS 1 A, B og C.
Hvað sérðu fyrir þér að þú hafir grætt mest á þjálfaramenntuninni? Í ÍSÍ hlutanum lærir maður svona almenna þjálffræði og íþróttafræðilega hugsun. Hvað hentar hverjum og einum. Sem gildir rauninni sem undirstöðuatriði í allri almennri íþróttaþjálfun. Svo hef ég skyndihjálparpróf sem er skylda því ef eitthvað gerist inn á svellinu þarf ég að geta staðið undir því að foreldrarnir geti bæði treyst mér og að ég geti brugðist rétt við. Í sérgreinahlutanum nýti ég mest hvernig ég á að undirbúa mig inni á svellinu. Hvernig ég á að skipulegga kennslu allt frá upphitun og ískennslu. Við förum mikið í Skautum Regnbogann og lærum að kenna hann og gagnrýna. Skipulag og hvernig við erum fagleg í okkar grein.

Ætlarðu að halda áfram að mennta þig? Já hafi ég tækifæri til þess. Næsta stig hjá ÍSÍ er háskólastig og það er dálítið síðan stig 2 var í boði hjá ÍSS en ég mun taka það þegar það verður í boði næst. Sú menntun sem ég hef gefur mér leyfi til að þjálfa 12 ára og yngri.
Hverjum kennirðu helst? Ég kenni í skautaskóla barna, unglinga og fullorðinna. Mesti munurinn á þessum hópum er þroskinn. Það er rosalega munur eins og ungbarnaskautaskólanum ertu með mjög basic æfingar. Svo er t.d. 5 og upp í 10 ára mjög misjafnt hvernig þroskinn er og mesta breytingin verður á þessum hópi. Unglingarnir eru svoldið borubrattir og svo eru þessir fullorðnu sem skilja vel og tæknin er rétt en vantar kannski framkvæmd. Allt mjög gefandi.
Vinnurðu marga tíma á viku sem þjálfari? Ég vinn kannski 10 tíma á viku sem er meðtalið upphitun og undirbúningur.
Myndirðu vilja gera þetta að framtíðarstarfi? Ég myndi algerlega vilja halda áfram að starfa sem þjálfari.
Hvað finnst þér þjálfari þurfi að hafa til brunns að bera? Þú þarf að vera fyrirmynd. Mæta á réttum tíma og í réttum klæðaburði, vera skýrmælt og miða æfingar við getu þeirra sem þú ert að kenna. Þolinmæði er nauðsynleg. Ég segi maður þarf alltaf að vera þolinmóður og blíður en samt strangur því ef þú ert of blíður þá getur komið upp vandamál í hópnum sem svo getur smitast inn í aðra hópa
Hvernig gengur með að leysa vandamál ef þau koma upp? Vandamál reyni ég að leysa eins vel og hægt er. Mér finnst best að reyna að hitta á þá sem senda fyrirspurnir eða kvartanir því ég vil hafa samskipti persónuleg.
Hvað gleður þig mest í starfi? Mér finnst langskemmtilegast þegar allir eru glaðir og það er gaman á æfingu. Ég reyni yfirleitt að brjóta upp æfingarnar og gera þær eitthvað skemmtilegar eða krefjandi þannig allir geti fengið eitthvað skemmtilegt út úr æfingunni.
Hvað finnst þér minnistæðast úr starfinu? Mér finnst alltaf gaman að horfa á sýningarnar í lok tímabils þegar maður sér framfarirnar. Þegar maður horfir á þessa sem ekki gátu staðið í upphafi taka þátt í sýningu.

Translate »