Skautasamband Íslands (ÍSS) var stofnað árið 1995 og var í upphafi skipt upp í hlaupadeild og hokkídeild. Hlaupadeild Skautasambandsins hafði yfirumsjón með listhlaupi á skautum, auk þess sem gert var ráð fyrir að skautahlaup félli undir þá deild líka. Í nóvember 2004 átti sér stað aðskilnaður með stofnun Íshokkísambands Íslands. Þær greinar sem áður féllu undir listhlaupadeild tilheyrðu Skautasambandinu áfram en íshokkí fluttist yfir til hins nýja landssambands.  

Aðildarfélög að Skautasambandi Íslands eru þrjú: Skautafélagið Björninn, Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur. Hjá þessum félögum eru um 700 iðkendur misjafnlega langt á veg komnir.

Í febrúar árið 2000 fékk hlaupadeild Skautasambandsins tímabundna aðild að Alþjóðlega Skautasambandinu (ISU). Til þess að fá fulla aðild þá þurfti Hlaupadeild Skautasambandsins að uppfylla þær kröfur sem ISU setti en árið 2002 fékk sambandið fullgilda aðild og hefur verið aðili síðan. Frá þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í listskautum á Íslandi og mikið uppbyggingarstarf átt sér stað. Með aðild hafa einnig opnast tækifæri til þátttöku erlendis sem áður voru ekki möguleg.

Íslenskir skautarar hafa tekið miklum og örum framförum undanfarin ár sem má fyrst og fremst má þakka yfirbyggingu skautasvella hér á landi frá árinu 1998. Einnig hefur breytt hugarfar eftir aðild að ISU og þátttöku í verkefnum á vegum þess átt sinn þátt í framförunum. Má þar nefnda Finnlandsverkefnið sem gekk út á það að mennta þjálfara, dómara og bæta árangur hjá skauturum. Þrátt fyrir þessi framfaraspor er enn talsvert langt í land að Ísland verði í toppbaráttu á erlendum vettvangi þó að sjálfsögðu sé það langtímamarkmið. Til þess að það geti orðið að veruleika eru enn nokkur baráttumál sem þarf að vinna frekar að. Þar má fyrst nefna lengingu á skautatímabilinu sem í dag eru 8 mánuðir en þyrftu að vera 11 mánuðir. Einnig þarf meiri ístíma í hverjum mánuði því að listskautar, eins og aðrar íþróttir, byggja á styrk, tækni, færni og liðleika. Það krefst mikils tíma og elju við æfingar að ná árangri.

Á undanförnum árum hefur Skautasambandið fyrst og fremst einbeitt sér að uppbyggingu íþróttarinnar hér á landi sem aðallega hefur falist í menntun þjálfara og dómara. Framundan er enn frekari uppbygging á því starfi sem þegar hefur átt sér stað sem og áframhaldandi uppbyggingarstarf í afreksmálum íþróttarinnar.

Formenn Listhlaupadeildar frá upphafi:

1995 - 1996 Hannes Sigurjónsson
1996 - 1997 Marjo Kristinsson
1997 - 2004 Elísabet Eyjólfsdóttir

Formenn Skautasambands Íslands:

2004 - 2007 Elísabet Eyjólfsdóttir
2007 - 2012 June Eva Clark 
2012 - 2014 Björgvin Ingvar Ormarsson 
2014 - 2016 Margrét Jamchi Ólafsdóttir
2016 -          Guðbjört Erlendsdóttir