Bikarmót ÍSS 2018

Bikarmót ÍSS 2018

Bikarmót ÍSS fór fram dagana 12. - 14. október sl.
Þetta er annað mótið á þessu tímabili. Rétt rúmleg 50 keppendur voru skráðir til keppni í átta keppnisflokkum.

Keppni hófst á laugardagsmorgun. Sjö stúlkur kepptu í Intermediate Novice og fór Edda Steinþórsdóttir með sigur af hólmi með 24.25stig. Nokkru á eftir komu Natalía Rán Leonsdóttir með 19.47stig og Ólöf Thelma Arnþórsdóttir með brons og 19.15stig. Allar keppa þær fyrir Skautafélag Reykjavíkur. Þá hófst keppni í Intermediate Ladies með fyrsta keppandanum Evu Björgu Halldórsdóttur frá Akureyri. Fékk Eva 37.89stig og reyndist sigurvegari dagsins en Berglind Óðinsdóttir úr Birninum fylgdi fast á hæla henni með 36.77stig. Í þriðja sæti varð svo Hildur Bjarkadóttir, einnig úr Birninum, með 27.53stig.

Í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior er keppt með tvö prógrömm og var keppt með stutta prógrammið á laugardag.
Keppnin í Advanced Novice var afar spennandi en sjö stúlkur voru skráðar í keppni. Leikar fóru svo að efst eftir stutta prógramið er Rebekka Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Reykjavíkur með 29.94stig. Önnur er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Birninum með 26.25stig og þriðja er Herdís Heiða Jing Guðjohnsen með 24.24stig.
Í Junior voru sex keppendur sem allir hafa komið við sögu í landsliði undanfarinna ára. Efst eftir fyrri daginn er Aldís Kara Bergsdóttir frá Akureyri með 34.04stig. Í öðru sæti er Helga Karen Pedersen úr Birninum með 31.43stig og fast á hæla henni, Viktoría Lind Björnsdóttir frá Skautafélagi Reykjavíkur með 31.04stig. Ljóst er að von er á spennandi keppni á morgun í þessum flokki.
Í Senior voru tveir keppendur. Margrét Sól Torfadóttir steig fyrst á ísinn í sinnu fyrstu keppni í flokkinum á þessu tímabili. Margrét Sól skilaði ágætu prógrami með 26.57stig. Það var síðan Eva Dögg Sæmundsdóttir sem sem lauk keppnisdeginum og skaut sér í fyrsta sætið með 30.05stig.

Seinni keppnisdagur hófst með barnaflokkum stundvíslega klukkan 9. Í Chicks og Cubs eru ekki veitt verðlaunsæti og fá allir þátttökuviðurkenningar. Í Basic Novice luku sex keppendur dönsunum sínum á ísnum í dag við mikinn fögnuð áhorfenda. Sigurvegari varð Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir frá Akureyri, Kristín Jökulsdóttir úr Skautafélagi Reykjavíkur varð önnur og Tanja Rut Guðmundsdóttir frá Skautafélaginu Birninum þriðja.
Hófst svo keppni í frjálsu prógrami í svokölluðum ISU flokkum. Þeir flokkar keppa eftir reglum frá Alþjóðaskautasambandinu og koma til greina í landslið Íslands á t.d. Norðurlandamót. Keppnisflokkarnir eru þrír og var byrjað á keppni í Advanced Novice. Rebekka Rós Ómarsdóttir frá Skautafélagi Reykjavíkur hafði góða forystu eftir fyrri daginn og jók hana enn í dag og sigraði með yfirburðum og 76.04stig. Í öðru sæti varð Júlía Rós Viðarsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar með 68.37stig en hún skautaði sig upp um tvö sæti þar sem hún hafði verið fjórða eftir stutta prógramið. Í þriðja sæti varð svo Júlía Sylvía Gunnarsdóttir frá Skautafélaginu Birninum sem vermt hafði annað sæti deginum áður og voru lokastig hennar einungis 0.79 stigum á eftir Akureysku Júlíu eða 67.58stig.
Þá var komið að keppni í Junior ladies. Keppnin var afar spennandi enda margir keppendur á svipuðu stigaróli frá fyrri deginum og ljóst að allt gat gerst. Eftir að hafa skautað virkilega vel báða dagana stóð Aldís Kara Bergsdóttir frá Akureyri uppi sem öruggur sigurvegari með 96.18stig. Í öðru sæti varð svo Viktoría Lind Björnsdóttir úr Skautafélagi Reykjavíkur með 89.40stig og tókst með góðri frammistöðu í dag að skauta sig upp um sæti. Þriðja sætinu náði svo Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir frá Skautafélagi Akureryar sem átti geysigóðan dag og skautaði sig upp úr fjórða sætinu frá í gær í það þriðja.
Síðasti keppnisflokkurinn á ísinn í dag var Senior ladies en í honum kepptu að þessu sinni tvær konur. Eva Dögg Sæmundsdóttir frá Skautafélaginu Birnium hafði tæplega fjögurra stiga forystu eftir fyrri daginn á Margéti Sól Torfadóttur frá Skautafélagi Reykjavíkur. Það var því á brattann að sækja fyrir Margréti sem tjaldaði öllu sem hún átti og lauk sinni fyrstu keppni í keppnisflokkinum glæsilega með 92.22stig. Eva Dögg skautaði síðust og náði sér ekki almennilega á strik eftir að hafa byrjað mjög vel og fékk 86.67stig. Margrét Sól fékk því gullverðlaun og Eva Dögg silfur.
Keppni er því lokið á Bikarmóti ÍSS þetta árið. Næsta mót ÍSS er Íslandsmót barna og unglinga og Íslandsmeistaramót sem haldin verða saman í Egilshöll í Grafarvogi 30. nóvember til 2. desember.
Skautasambandið óskar keppendum til hamingju með frábæran árangur á mótinu

Chicks

Basic Novice

Intermediate Ladies

Junior Ladies

Cubs

Intermediate Novice

Advanced Novice

Senior Ladies

Translate »