Íslandsmót barna og unglinga 2022

Íslandsmót barna og unglinga 2022

Dagana 19. og 20. nóvember sl. fór fram Íslandsmót barna og unglinga í skautahöllinni í Egilshöll.

Á laugardeginum hófst keppni í flokkum Intermediate Novice, Intermediate Women og Intermediate Men.

Fyrsti flokkur á ís var Intermediate Novice. Þar voru 6 skautarar skráðir til keppni en eftir að tveir keppendur drógu sig úr keppni voru einungis fjórir skautara sem tóku þátt. Fyrst á ísinn var Sunna Dís Hallgrímsdóttir, SR, frammistaða hennar var flott þrátt fyrir tvö föll, framkvæmdin hjá henni skilaði henni 18.41 heildar stigum og fjórða sæti. Því næst var það Ísabella Jóna Sigurðardóttir, Fjölni, með glæsilegt prógram og skilaði henni 3. sæti með 19.78 stig. Kolbrún Sveinsdóttir, SR, varð í 2. sæti með 21.04 stig, eftir glæsilega frammistöðu. Sólveig Kristín Haraldsdóttir, SR, landaði 1. sætinu með 29.84 stig eftir öruggt prógram og flottan dans.

Því næst hófst Intermediate Women. Þar hafa keppendur staðið sig með eindæmum vel og keppni hörð á milli þeirra, mjótt var á munum í efstu sætunum. Í 3. sæti var Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir, SR, með 26.66 stig með flott prógram. Í 2. sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir, Fjölni, með heildarstig 31.09 stig eftir sterka frammistöðu. Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni, landaði 1. sæti með heildarstig 35.91 með stór glæsilegt og öruggt prógram, allt á plúsum.

Loka flokkur dagsins var Intermediate Men þar sem einn keppandi tók þátt. Gaman er að segja frá því að þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem við sjáum keppni í karla flokki, og stóð hann sig glæsilega með 16.50 heildarstig.Margir komu til að fylgjast með Halldóri Hrafni sem var virkilega gaman að sjá, þó svo að prógrammið hafi ekki verið upp á sitt allra besta í dag, en það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Á sunnudegi var keppt í flokkum Chicks því næst voru það Cubs og að lokum Basic Novice.

Í keppnisflokkum Chicks og Cubs er ekki raðað í sæti, en allir keppendur og þjálfarar þeirra fá endurgjöf frá dómurum. Í Chicks voru þrjár stúlkur skráðar til keppni og í Cubs voru það níu stúlkur sem kepptu. Allir skautarar sýndu frábæra frammistöðu og eiga þær framtíðina fyrir sér innan skautaíþrótta.

Síðasti keppnisflokkurinn var Basic Novice. Þar voru 10 stúlkur sem mættu til keppni. Er þessi keppnisflokkur fjölmennasti flokkurinn á mótinu að þessu sinni. Hægt er að segja að mjótt hafi verið á munum í efstu tveim sætunum þar sem einungis 0,01 stigi munaði á milli 1. og 2. sætis. Stóðu allar stelpurnar í Basic Novice sig vel og úrslit fóru þannig að Arna Dís Gísladóttir, Fjölni, hafnaði í 3.sæti með heildarstig upp á 25.19. Því næst var það Berglind Inga Benediktsdóttir, Fjölni, með 30.01 sig í heildina eftir góða frammistöðu. 0,01 stigi fyrir ofan Berglindi hafnaði Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Fjölni, í fyrsta sæti með 30.02 heildarstig eftir fallega framkvæmd á prógrami og vel skautuðu.

Íslandsmót barna og unglinga fór vel fram og var gaman að sjá stöðugar framfarir hjá skauturunum okkar og margir sem settu persónuleg stigamet á mótinu sem er alltaf skemmtilegur árangur fyrir alla.

Skautasamband Íslands óskar þeim til hamingju með glæsilegan árangur.

Translate »